top of page

Leiðbeiningar fyrir umönnunarstofnanir

Dæmi

  • Anna (nafn breytt) er með Alzheimer-sjúkdóm. Hún er venjulega róleg á morgnana, en verður órólegri eftir því sem líður á daginn. Anna heldur oft að hún þurfi að fara heim, sjá móður sína eða taka strætó, sem veldur henni miklu hugarangri. Starfsfólkið þurfti að hafa mikið fyrir að finna leiðir til að halda henni rólegri seinnipartinn.

     

    Anna er mjög trúuð og nýtur þess að fara í kirkju, þar sem hún tekur unidr í sálmasöng. Starfsfólkið ræddi um hvort það að spila kunnuglega sálma gæti hjálpað henni á órólegum stundum. Þau bjuggu til spilunarlista með sálmum og lögum sem Anna syngur gjarnan í kirkjunni, í von um að þetta gæti róað hana.

     

    Einn eftirmiðdag sat Anna í stofunni í úlpunni sinni, fullviss um að strætó myndi koma svo hún kæmist heim. Annar íbúi sagði henni að þetta væri ekki rétt, sem gerði Önnu enn örvæntingafyllri. Hún fór að öskra. Starfsfólkið flýtti sér að fara með hana í rólegra herbergi og spilaði spilunarlistann hennar. Í fyrstu varð Anna mjög hissa þegar hún kannsðist við tónlistina. Síðan sagði hún frá því hversu mikið hún elskaði að syngja þessi lög í kirkjunni og hvernig þau minntu hana á sín yngri ár. Á meðan Anna hlustaði á tónlistina með starfsmanninum róaðist hún smám saman og slakaði á. Þegar hún var orðin róleg, fylgdi starfsmaðurinn henni í rólegheitum til inn til sín, þar sem hún sofnaði vært.

    Að kalla fram minningar: Tónlist hefur einstaka eiginleika til að kalla fram minningar og tilfinningar frá liðinni tíð.

  • Elisabet (nafni breytt) er 86 ára og með heilabilun. Hún hefur mikla þörf fyrir hreyfingu og á í erfiðleikum með að sitja kyrr þegar hún er ein. Þetta leiðir oft til þess að henni finnst hún ein og yfirgefin. Þegar hún er innan um annað fólki, eins og við máltíðir eða á eftir hádegi í stofunni, getur hún setið kyrr. Maður hennar kemur sjaldan í heimsókn og hún sér sjaldan aðra gesti, sem styrkir tilfinningu hennar fyrir einangrun. Elisabet er ræðin, en verður fljótt óróleg þegar hún þarf að gera eitthvað sem hún hefur ekki áhuga á.

     

    Á yngri árum hafði Elisabet mjög gaman af dansi og söng, og hún kann ennþá mörg lög utanbókar, þó að hún eigi í erfiðleikum með að finna réttu orðin í venjulegum samtölum. Starfsfólkið ákvað að nýta tónlist til að tengjast Elisabetu og koma í veg fyrir að hún einangraðist. Þau völdu tónlist sem hún þekkti vel—lög og dansa frá hennar yngri árum.

    Einn daginn, þegar Elisabet gekk um og beið eftir matnum, spilaði starfsfólkið nokkur af uppáhalds lögunum hennar. Hún settist strax niður og byrjaði að syngja með. Hún var himinlifandi yfir tónlistinni og sagði: "Dásamlegt, svo fallegt. Viltu ekki dansa?" Starfsfólkið varð hrært yfir því hversu hamingjusöm og glaðleg Elisabeth varð þegar hún heyrði kunnuglega tónlist sem hún hafði ekki heyrt lengi. Í hádegismatnum átti Elisabet langt samtal við starfsfólkið um hversu falleg tónlistin væri.

    Tilfinningar og hegðunarstjórnun:  Tónlist hefur djúpstæð áhrif á tilfinningar og hjálpar fólki við að takast á við kvíða, óróleika og aðra hegðun.

  • Tilfinningar og hegðunarstjórnun: Tónlist hefur djúpstæð áhrif á tilfinningar og hjálpar fólki við að takast á við kvíða, óróleika og aðra hegðun.

    Diana (nafn breytt) býr á hjúkrunarheimili. Hún er með Alzheimer-sjúkdóm og er á fjórða stigi hans. Vegna sjúkdómsins getur Diana ekki lengur tjáð tilfinningar sínar eða þarfir. Hún er enn líkamlega virk, en hún muldar mikið og syngur oft fyrir sjálfa sig, sem getur verið pirrandi og truflandi fyrir hina íbúa deildarinnar. Hún verður oft óróleg við daglegar athafnir eins og að klæða sig eða þvo sér og getur þá orðið árásargjörn, slegið, klipið og skirpt.

    Starfsfólkið ákvað að reyna að nýta tónlist við athafnir daglegs lífs(ADL), í von um að þetta myndi róa Diönu við þessar aðstæður. Þau ræddu við fjölskyldu Diönu til að komast að því hvaða tónlist væri henni að skapi. Síðan var útbúið umönnunarplan þ.s. uppáhalds tónlist Díönu var samþætt umönnuninni. Á meðan Díana var að vakna var spiluð eitthvað af uppáhalds tónlistinni hennar og hlustuðu Díana og umönnunaraðilinn saman á tónlistina í svolitla stund. Þegar Díana einbeitti sér að tónlistinni, róaðist hún og varð samvinnuþýðari, þannig að betur gekk að hjálpa henni að klæða sig og aðstæður voru auðveldari bæði fyrir hana og starfsfólkið.

  • Félagsleg samskipti og tengsl: Tónlist veitir möguleika á að mynda félagsleg tengsl, einnig fyrir þá sem eiga bágt með að tjá sig.

    Rimas (nafn breytt) er 58 ára maður sem getur ekki tjáð sig vegna heilabilunar. Hann er með Downs-heilkenni, en ástand hans hefur versnað á síðustu misserum. Hann getur ekki lengur búið heima og býr á hjúkrunarheimili.

     

    Rimas er meðvitaður um umhverfi sitt, en áttar sig illa á stað og stund. Hann er skaplaus, tilfinningar virðast yfirborðskenndar og hann talar samhengislaust. Hann svarar ekki alltaf tiltali, hefur lélegt augnsamband og virðist oft kvíðinn.

     

    Rimas tekur þátt í músíkmeðferð tvisvar í viku í 45-60 mínútur, þar sem 4 til 8 sjúklingar taka þátt. Þeir eru með heilabilun, og margir eru hreyfihamlaðir.

    Músíkmeðferðin fer fram í setustofu deildarinnar, þar sem sjúklingarnir geta slakað á meðan þeir horfa á sjónvarp eða borða. Hljóðfæri eru á borði sem allir hafa aðgang að. Í tímunum eru ýmsar aðferðir notaðar, svo sem spuni og hljóðfæraleikur, hreyfiþjálfun og söngur.

    Í byrjun var Rimas hikandi við að taka þátt. Hann fylgdist með úr fjarlægð, en tók ekki virkan þátt. Smám saman, á meðan hann fylgdist með hinum, fór hann að nálgast og hlusta af meiri athygli. Að lokum tók hann upp hljóðfæri og spilaði með tónlistinni. Eftir því sem á leið fór Rimas að brosa oftar, varð afslappaðri og tók virkari þátt.

    Starfsfólkið tók eftir því að Rimas varð rólegri og minna kvíðinn eftir tímana í músíkmeðferðinni. Fjölskyldan hans, sem fylgdust stundum með í tímunum, tóku eftir því að tónlistin hjálpaði honum að slaka á, bætti skap hans og athygli og hann varð virkari þátttakandi í hópnum. Þau tóku einnig eftir því, að músíkmeðferðin dró úr bæði líkamlegum og tilfinningalegum óþægindum.

  • Vitsmunaleg örvun: Að syngja og spila tónlist getur örvað heilann, sem stuðlar að meiri virkni og veitir lífsgæði.

    Mykolas (nafn breytt) er 73 ára maður sem var lagður inn á sjúkrahús. Hann var greindur með hjartasjúkdóm, sykursýki og byrjandi heilabilun. Mykolas hefur meðalþörf fyrir sértæka aðstoð—hann getur ekki gengið, er ekki sjálfbjarga um athafnir daglegs lífs og þjáist af stöðugum mjaðmaverkjum. Á meðferðarplani hans eru æfingar í samráði við sjúkraþjálfara, þátttaka í safnaðarstarfi og vikuleg músíkmeðferð.

    Mykolas byrjaði í músíkmeðferð, í kapellunni á sjúkrahúsinu, þar sem bæði píanó og orgel voru til staðar. í fyrsta tímanum spilaði Mykolas á kapelluorgelið og sagði frá sálmum sem hann hafði samið. Hann reyndi einnig að spila nokkra af þessum sálmum. Mykolas sagði tónlistina alltaf hafa verið mikilvægan hluta af lífi hans. Í æsku kenndi hann sjálfum sér að spila á píanó og klarinett

    Mykolas hafði alltaf spilað mikið en aldrei lært eins mikið og hann hefði óskað. Eftir hafa fengið heilablóðfall í tvígang gat hann ekki lengur spilað á píanó eins og áður vegna erfiðleika við að stjórna fingrum vinstri handar

    .

    Helstu markmið músíkmeðferðarinnar hjá Mykolas voru að hjálpa honum að sætta sig við núverandi ástand sitt og nýta tónlistina sem miðil fyrir andlega örvun, sjálfstæði, sjálfstraust og að finna nýjan tilgang í lífinu. Hver tími byrjaði með stuttum tónlistarspuna og samtali um atburði síðustu viku. Að því loknu voru verkefnin ákveðin að óskum Mykolas fyrir þann dag. Ein aðal aðferðin sem var notuð var "tónlistarlífsendurminning" þar sem Mykolas flutti valin lög með músíkmeðferðarfræðingnum eða samdi ný lög og texta.

    Mykolas undirbjó sig alltaf vandlega fyrir hvern tíma. Hann tók með sér minnisbók með stækkuðum nótnablöðum sem voru útbúin fyrir hann, blýant og strokleður. Milli tímanna samdi hann ný lög sem hann síðan spilaði í músíkmeðferðinni.

    Tónlistarmeðferð hafði djúpstæð áhrif á Mykolas—hún örvaði vitsmunalega getu hans, hvatti til sjálfstæðrar tónlistariðkunnar, jók sjálfstraust hans og veitti honum kraft til að semja og flytja tónlist. Hún hjálpaði honum að einbeita sér að tækifærunum í lífi hans í stað þess að einblína á takmarkanir hans. Músíkmeðferðin minnkaði einnig einmannaleika og einangrun og fullnægði andlegum þörfum hans. Eins og Mykolas sagði sjálfur: "Tónlistin vakti lífsorku mína og hamingju".

  • Bætt lífsgæði: Tónlist getur bætt skap, vakið jákvæðar tilfinningar og þannig stuðlað að almennri vellíðan.

    Davíð er með Alzheimer-sjúkdóm. Auk heilabilunar hefur hann ýmsa líkamlega kvilla. Sökum aldurs og heilabilunar hefur líkamlegt ástand hans versnað og hann á orðið erfitt með gang. Davíð þreytist fljótt og eftir morgunmat vill hann venjulega leggja sig aftur. Hann verður oft pirraður þegar starfsfólk vekur hann í matinn og það er áskorun að koma honum þangað.

     

    Teymið vildi hjálpa Davíð að byrja daginn á jákvæðari hátt, þannig að ákveðið var að nota tónlist þegar hann var vakinn á morgnana. Hugmyndin var að skapa hlýtt og notalegt andrúmsloft til að bæta skap hans og hvetja hann til hreyfingar. Davíð hefur gaman af tónlist og bregst oft vel við henni með því að syngja með. Starfsfólkið ákvað að syngja fyrir hann meðan þau hjálpuðu honum upp úr rúminu. Markmiðið var að létta umönnun og bæta skap hans í upphafi dags.

     

    Einn morguninn fann Davíð fyrir óþægindum og hafði verið í rúminu allan morguninn. Hjúkrunarfræðingur vakti hann rétt fyrir hádegi, en þrátt fyrir að hann hafði sofið vel, vildi hann samt vera áfram í rúminu. Til að bæta skap hans fór hjúkrunarfræðingurinn að syngja lag sem hún vissi að Davíð hafði gaman af. Fljótlega tók Davíð undir. Skap hans breytist fljótt og rödd hans fylltist gleði. Hann brosti og virtist hamingjusamur.

    Hjúkrunarfræðingur var ánægð með árangurinn og fann hvernig notkun tónlistar var einföld og áhrifarík leið til að bæta skap Davíðs og gera morgunverkin þægilegri fyrir hann en einnig starfsfólkið.

  • John (nafn breytt) er með heilabilun og býr á hjúkrunarheimili. Auk þess hefur hann fengið heilablóðfall, sem hefur gert honum erfitt fyrir að hreyfa vinstri handlegginn. Hann var oft ragur við að fara í sjúkraþjálfun, en var tilbúinn til að gera einfaldar æfingar með músíkmeðferðarfræðingnum til að styrkja handlegginn.

    Sem hluti af músíkmeðferðinni notar músíkmeðferðarfræðingurinn valin lög til að styðja einfaldar æfingar á meðan John situr í stólum sínum. Hreyfingarnar í tónlistinni eru notaðar til að styðja hverja æfingu, til dæmis marslög fyrir göngu, valslög til að styðja sveiflu handleggjanna og hreyfingar efri líkama til hliðar, fram og til baka. Þessar einföldu æfingar með hvatningu tónlistarinnar hjálpuðu John til að komast í gang með endurhæfingu eftir heilablóðfallið

    Bætt hreyfing: Tónlist getur bætt samhæfingu og hvatt til hreyfingar, þess vegna er hún oft notuð í sjúkraþjálfun.

bottom of page